Mál 12 2021

Mál 12/2021

Ár 2021, fimmtudaginn 7. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. maí 2021 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærða í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 28. maí 2021 og barst hún þann 16. júní sama ár. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 24. júní 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust til nefndarinnar þann 4. ágúst 2021 og voru þær kynntar kærða með bréfi þann 17. sama mánaðar. Með tölvubréfi kærða til nefndarinnar, dags. 26. ágúst 2021, var upplýst að ekki kæmi til frekari athugasemda af hans hálfu. Var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að kærandi hafi leitað til lögmannsstofu kærða í lok júlímánaðar 2019 vegna deilna sem hann og ólögráða dóttir hans höfðu átt við aðra hluthafa og stjórnendur í félaginu C ehf. Lýsti kærandi því máli í grófum dráttum í tölvubréfi til lögmansstofunnar, dags. 30. júlí 2019, og tók meðal annars fram að málið hefði „sterkan félagslegan undirtón“ og að það varðaði „persónuleg samskipti í kjölfar meðferð hlutanna og umdeildan rekstur félagsins.“

Ágreiningslaust er að aðilar hittust á fundi þann 6. ágúst 2019 og að kærði tók í framhaldi af því að sér ráðgjöf og hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins. Er á meðal málsgagna að finna umboð þar að lútandi sem kærandi veitti lögmannsstofu kærða þann 3. september 2019. Skuldbatt kærandi sig samkvæmt umboðinu til að greiða lögmannsstofunni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma. Var jafnframt tiltekið að gjaldskráin hefði verið kynnt kæranda og að hann hefði jafnframt verið upplýstur um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað.

Fyrir liggur að kærði annaðist ráðgjöf og hagsmunagæslu í þágu kæranda frá þeim tíma og til ársloka 2020. Mun lögmannsþjónusta kærða einkum hafa falist í munnlegri og skriflegri ráðgjöf gagnvart kæranda, þar á meðal varðandi erindi sem beint var til D og E á tilgreindu tímabili vegna málefna C ehf. Er á meðal málsgagna að finna tölvubréf og bréf frá D til kæranda, frá 18. febrúar og 7. júlí 2021, þar sem meðal annars var tiltekið að málið væri í bið þangað til E hefði úrskurðað í því og að félagið væri „læst“ á meðan. Þá liggur jafnframt fyrir tölvubréf frá tilgreindu ráðuneyti sem sent var til stjórnarformanns C ehf. og kæranda, dags. 13. ágúst 2020, vegna málsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru fimm reikningar gefnir út af lögmannsstofu kærða vegna fyrrgreindra lögmannsstarfa. Voru þeir í öllum tilvikum gefnir út á einkahlutafélag í eigu kærða, þ.e. F ehf.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. 10590 þann 25. september 2019 að fjárhæð 167.400 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu, sem mun hafa fylgt með reikningnum, var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu frá 6. ágúst til 25. september 2019, í alls sex klukkustundir. Var útselt tímagjald að fjárhæð 22.500 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var reikningurinn greiddur án athugasemda þann 30. september 2019.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. 11010 þann 20. mars 2020 að fjárhæð 348.750 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu frá 2. október 2019 til og með 17. mars 2020, í alls 11.25 klukkustundir. Var útselt tímagjald samkvæmt reikningnum að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt málsgögnum var reikningurinn greiddur án athugasemda með greiðslum dagana 4. maí og 2. júlí 2020.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. 11152 þann 11. júní 2020 að fjárhæð 147.250 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða á tímabilinu frá 17. apríl til og með 2. júní 2020, í alls 4.75 klukkunstundir. Var útselt tímagjald samkvæmt reikningnum að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila verður ráðið að reikningurinn sé enn ógreiddur.

Í fjórða lagi var gefinn út reikningur nr. 11233 þann 28. ágúst 2020 að fjárhæð 23.250 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða dagana 3. og 6. júlí 2020, í alls 45 mínútur. Var útselt tímagjald sem fyrr að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila verður ráðið að reikningurinn sé enn ógreiddur.

Í fimmta og síðasta lagi var gefinn út reikningur nr. 11499 þann 3. desember 2020 að fjárhæð 31.000 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tímaskýrslu var um að ræða reikning vegna lögmannsstarfa kærða í október- og nóvembermánuði 2020, í alls eina klukkustund. Var útselt tímagjald hið sama og áður greinir. Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila verður ráðið að reikningurinn sé enn ógreiddur.

Af málsgögnum verður ráðið að aðilar hafi átt í tölvubréfasamskiptum vegna hinna ógreiddu reikninga á tímabilinu frá 8. desember 2020 til 12. apríl 2021. Er þar á meðal að finna boð sem kærði gerði kæranda um lausn málsins, þ.e. að veittur yrði 30% afsláttur af útistandandi reikningum gegn greiðslu þeirra. Fyrir liggur að sátt náðist ekki á þeim grunni og var máli þessu, líkt og áður greinir, beint til nefndarinnar af hálfu kæranda með erindi sem móttekið var þann 25. maí 2021.

II.

Að mati nefndarinnar verður að skilja málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé annars vegar krafist að kærða verði gert að endurgreiða kæranda 496.000 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar verði að skilja málatilbúnað kæranda í kvörtun með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er vísað til þess að henni sé beint að þjónustu og innheimtukostnaði vegna starfa kærða.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi tekið að sér mál haustið 2019 er varðað hafi brot á lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög vegna starfsemis tiltekins félags. Auk þess hafi verið farið á svig við samþykktir félagsins í viðskiptum með hluti í því. Hafi kærandi sinnt hagsmunum ólögráða dóttur sinnar en hún hafi átt 24% hlut í félaginu. „G“ hafi verið tveir hluthafar af fimm, auk stjórnarformanns án eignarhluta.

Kærandi lýsir því að brotin hafi verið skýr og hafi E tekið málið til skoðunar á grundvelli 72. gr. laga nr. 138/1994. Jafnframt því hafi D „læst“ félaginu í ábyrjun 2021 að kröfu kæranda, vegna bæði endurtekinna brota viðkomandi aðila og skorts á skýringum á háttsemi þeirra. Vísar kærandi til þess að félagið sé enn „læst“ og að ekki liggi fyrir niðurstaða hins opinbera með tilliti til kæra.

Kærandi vísar til þess að þjónustan sem hann hafi óskað eftir við kærða hafi verið að taka málið til kærumeðferðar og/eða til dómstóla ef ekki næðist samtal, sátta- eða málamiðlun við gagnaðila eftir framlagningu formlegrar kæru. Hafi formleg kæra þannig verið möguleiki og tilraun sem þvingunarúrræði til að ná aðilum að samningaborði. Í aðdraganda málsins, þ.e. áður en kærði kom að því, hafi verið ljóst að ekki tækist að fá gagnaðila að því samtali. Hafi kærandi því ekki beðið kærða um að ræða við viðkomandi gagnaðila klukkustundum saman á tímabilinu, heldur þá aðeins til að heyra sjálfur hvernig málatilbúnaður og útúrsnúningur aðila birtist. Vísar kærandi einnig til þess að kærða hafi verið ljóst að stjórnarformaður viðkomandi félags væri kominn hátt á áttræðisaldur og að hann hefði verið „döppaður“ í stól formanns félagsins af hálfu tveggja hluthafa.

Vísað er til þess að kærði hafi tekið saman vinnuskjal með yfirliti yfir mögulega framvindu og úrræði í árslok 2019, sem kærandi hafi greitt fyrir. Hafi verið um að ræða kostnað að fjárhæð ca. 140.000 krónur. Kærandi kveðst hins vegar ekki hafa fengið upplýsingar um þær áherslur sem kærði hafi haft í hyggju að leggja áherslu á í málsmeðferðinni fyrr en 11 mánuðum síðar, þ.e. í nóvembermánuði 2020. Á þeim drætti hafi engin skýring fengist. Hafi það verið of seint og því ekki um ráðgjöf á þeim tímapunkti að ræða af hálfu kærða enda málið þá komið til meðferðar hjá viðkomandi ráðuneyti, þ.e. með erindi sem kærandi beindi þangað sjálfur.

Kærandi kveðst í góðri trú hafa greitt reikninga frá lögmannsstofu kærða á árunum 2019 og 2020. Á sumar- og haustmánuðum 2020 hafi kærði sent kæranda þrjá reikninga að samanlagðri upphæð um 150.000 krónur. Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki óskað eftir þeirri vinnu og að hún hafi ekki verið unnin í neinu samhengi við tiltekna framvindu eða „stragetíu“. Jafnframt því hafi kærða ekki verið kunnugt um að reikningarnir væru í innheimtu en taldi engu að síður að þeir söfnuðu vöxtum sem þyrfti að greiða.

Kærandi byggir á að kærði hafi gengið eins langt og hann hafi talið raunhæft til að blekkja kæranda til að greiða þessa reikninga. Hafi kærandi hafnað greiðsluskyldu samkvæmt reikningnum og séu þeir því komnir til innheimtu að nýju. Byggir kærandi á að reikningarnir hafi verið sendir í þeirri trú kærða að kærandi „borgaði bara“, að lögmannsstofa hans væri að vinna eitthvað í málinu og þoka því áfram. Í ljós hafi komið að í þjónustu kærða hafi falist símtöl við stjórnarformann viðkomandi félags sem vitað hefði verið að engan árangur myndu bera. Hafi málarekstur kærða skort allan fókus eða stefnu á tiltekinn árangur. Samkvæmt því hafi vinnubrögð kærða verið stefnulaus en klædd í trúverðugan búning í vinnuskýrslu. Auk þess hafi kærði látið afvegaleiðast í samtölum við fulltrúa gagnaðila, svo sem tölvubréf frá 12. apríl 2021 beri með sér.

Kærandi byggir ennfremur á að kærði hafi verið úrræðalaus og að hann hafi ekki ráðið við málið. Þrátt fyrir að málið hafi ekki unnist hafi kærði sent umrædda reikninga á árinu 2020 fyrir vinnu sem ekki hafi verið óskað eftir, þ.e. eftir að kærði hafi talið að málinu væri lokið. Séu reikningar þessir vegna samtala við stjórnarformann félagsins samkvæmt kærða. Þá hafi legið fyrir í árslok 2020 að kærði hefði engum árangri náð, ekki hlustað á kæranda sem umbjóðanda sinn, horfið frá málinu en þó sent reikninga og látið gagnaðila afvegaleiða sig.

Kærandi telur það hafið yfir vafa að kærði hafi fallið í fyrstu og fyrirsjáanlegustu gildru gagnaðila. Þannig líti opinberir aðilar sem eru með málið ekki svo á að málið snúist um „persónuleg samskipti.“ Jafnframt því liggi fyrir að málinu sé ekki lokið, líkt og kærði haldi fram. Bendir kærandi hins vegar á að málið sé íþyngjandi, svo ekki verði ofan á það bætt úrræðalausum lögmanni. Kveðst kærandi þannig hafa orðið fyrir vörusvikum og þremur tilraunum af hálfu kærða til að hafa af sér frekara fé.

Um endurgreiðslukröfuna vísar kærandi til þess að hún sé vegna tveggja reikninga, að heildarfjárhæð 496.000 krónur.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að ekkert í málatilbúnaði kærða skýri það ósamræmi að kærði hafi talið málinu lokið þegar því hafi ekki verið lokið. Byggir kærandi á að „rauðmerktir“ reikningar í málatilbúnaði kærða séu tilhæfulausir enda verði ekki betur séð en að þeir hafi verið gerðir eftir þann tíma sem kærði telji til loka málsins. Sé þar meðal annars að finna kostnað við óumbeðin símtöl en engin grein sé gerð fyrir árangri þeirra eða efni í tímaskýrslum og því óvíst hvort þau hafi átt sér stað. Auk þess innheimti kærði fyrir innkomin símtöl sem engan tilgang hafi haft heldur aðeins kostnað fyrir kæranda. Þá vísar kærandi til þess að það sé rangt að kærði hafi beint erindum til D og E og beitt sér í þeim efnum. Sé þar í mesta lagi um að ræða eitt símtal til eftirfylgni við erindi kæranda eða tölvupóstur því kærandi hafi sjálfur fylgt málinu eftir.

Kærandi bendir á að í vinnskýrslu kærða frá 2. janúar 2020 komi fram að hann hafi farið yfir samskipti kæranda við fyrirtækjaskrá og viðkomandi ráðuneyti og skrifað póst til stjórnarformanns og embættis ríkisskattstjóra. Bendir kærandi á að það að fara „yfir samskipti“ sé strangt tiltekið að fara aftur yfir sömu málavexti og áður höfðu komið fram í samtölum og tölvubréfum en kærandi kveðst ekki vita hvaða tölvubréf kærði hafi sent á þessum tíma. Fyrir þetta hafi kærði innheimt 37.500 krónur. Á tveimur virkum dögum á undan segi jafnframt í vinnuskýrslu kærða að samskipti og undirbúningur fyrir fund með kæranda hafi kostað 68.750 krónur, eða samtals um 110.000 krónur. Kveðst kærandi nefna þetta sem dæmi um það sem kalla mætti „double accounting“, því hér hafi verið um sömu málsatvik að ræða. Þá séu ítrekað skráð samtöl sem átt hafi sér stað um sömu atvik og efni. Samkvæmt því sé það rangt að lögmannsstofa kærða hafi haldið vinnu sinni í lágmarki og gætt sanngirnis í innheimtu. Byggir kærandi á að það sé blekking og beri árangur kærða í málinu vitni um það.

Kærandi vísar til þess að þau ráð sem kærði hafi veitt við rekstur málsins hafi verið almenn og heilbrigð skynsemi sem ekki hafi þurft að sækja til lögmannsstofu. Bendir kærandi á að kærði hafi átt að beina vinnu sinni til lausnar málsins að hinu opinbera eftirlitskerfi og að þess væri gætt að hagsmunir kæranda fyrir hönd skjólstæðings væru að fullu gætt með tilliti til andmælaréttar, upplýsingagjafar og að ekki væri brestur þar á. Ítrekar kærandi hér sjónarmið um úrræðaleysi kærða eða skort á reynslu hans.

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda í báðum tilvikum.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi leitað til lögmannsstofu hans í ágúst 2019 vegna deilna við aðra hluthafa og stjórnendur í félaginu C ehf. sem staðið höfðu um langt skeið, a.m.k. hálfan áratug. Eigi tilgreint félag fasteign á H sem sé í útleigu. Er því lýst að samskipti aðila hafi hafist þann 6. ágúst 2019 og að í kjölfar þess hafi kærandi afhent skjöl um deiluna sem talið hafi hartnær hundrað blaðsíður.

Kærði lýsir því að deila kæranda hafi lotið að hlutafjárhækkun í viðkomandi félagi sem farið hafi fram fyrri part árs 2015. Þar hafi þriðji aðili fengið afhenta hluti án þess að gætt hefði verið að forkaupsrétti en jafnframt því hafi ágreiningur verið um lausagang í stjórn félagsins, t.d. þar sem fundargerðir hefðu ekki verið ritaðar á hluthafafundum eða þær ekki innihaldið bókanir kæranda og þess háttar. Vísar kærði til þess að kærandi hafi talið sig eiga rétt á hinum nýju hlutum árið 2015 en stjórn félagsins hafi verið annarrar skoðunar.

Vísað er til þess að gefnir hafi verið út fimm reikningar vegna vinnu kærða í þágu kæranda. Reikningar frá 25. september 2019 og 20. mars 2020 hafi verið greiddir, samtals að fjárhæð 516.150 krónur. Ógreiddir séu hins vegar reikningar frá 11. júní, 28. ágúst og 3. desember 2020, samtals að fjárhæð 201.500 krónur.

Varðandi aðalkröfu um frávísun vísar kærði til þess að nær öll vinna hans hafi farið fram meira en ári áður en kvörtun í málinu var lögð fram. Þannig hafi reikningar nr. 10590 og 11010 verið gefnir út 25. september 2019 og 30. mars 2020 en fullyrða megi að þeir reikningar endurspegli kjarna þeirrar vinnu sem kærði hafi unnið fyrir kæranda. Auk þess hafi reikningarnir verið greiddir án athugasemda. Þá sé nær öll vinna vegna reiknings nr. 11152 unnin fyrir 25. maí 2020. Feli það í sér að nær öll vinna kærða hafi verið innt af hendi meira en ári áður en kæra barst nefndinni. Bendir kærði á að samhliða útgáfu reikninganna hafi kærði fengið afhenta tímaskýrslu og engar athugasemdir gert.

Kærði telur ljóst að kærandi geti ekki haft uppi endurgreiðslukröfu fyrir nefndinni þegar svo langt er liðið frá útgáfudegi þeirra, enda meira en ár liðið frá því að kærandi fékk reikninga í hendur. Byggir kærði einnig á, með hliðsjón af tímafrestum laga nr. 77/1998, að kærandi geti ekki haft uppi athugasemdir vegna þeirra starfa sem kærði innti af hendi og greitt var fyrir án athugasemda. Samkvæmt því kunni að vera rétt að vísa frá kvörtun kæranda, að minnsta kosti að hluta, þar sem meira en ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Mótmælir kærði því ennfremur að hægt sé að hafa uppi endurgreiðslurkröfur fyrir nefndinni.

Vegna kröfu um frávísun vísar kærði einnig til þess að óljóst sé í kvörtun með hvaða hætti hann á að hafa gert á hlut kæranda. Ekki liggi þannig fyrir með skýrum hætti hverju í þjónustu kærða hafi verið áfátt svo brotið hafi verið gegn rétti kæranda. Einnig sé það órökstutt að hvaða leyti kvörtun kæranda snúi að innheimtukostnaði. Kveðst kærði vekja athygli á þessu með tilliti til vanreifunar af hálfu kæranda sem leiði til frávísunar.

Kærði bendir aukinheldur á að þjónustu hans var veitt til F ehf., líkt og fyrirliggjandi reikningar sýni. Samkvæmt því hafi reikningar verið gefnir út á tilgreint félag að beiðni kæranda. Óljóst sé hvernig kærandi geti haft uppi athugasemdir fyrir nefndinni við útgefna reikninga kærða sem og veitta þjónustu, sem hann greiddi ekki fyrir. Gildi slíkt hið sama um endurgreiðslukröfu kæranda.

Að öðru leyti kveðst kærði hafna því að hann hafi í störfum sínu gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi strítt gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þannig hafi ráðgjöf og þjónusta kærða verið veitt með hagsmuni kæranda að leiðarljósi, að teknu tilliti til málsatvika, kostnaðar af vinnu o.s.frv. Hafi allir útgefnir reikningar kærða endurspeglað vinnu sem innt hafi verið af hendi í þágu kæranda, á grundvelli verkbeiðni, og í kjölfar samskipta aðila.

Kærði bendir á að erfitt sé að ná utan um samskipti aðila út frá fyrirliggjandi gögnum. Á milli tölvupósta hafi farið fram mörg símtöl milli aðila þar sem málið hafi verið rætt. Í öllum tilfellum hafi verið um raunverulega og nauðsynlega vinnu að ræða sem réttlætanleg hafi verið til að tryggja hagsmunagæslu fyrir félag kæranda.

Varðandi athugasemdir kæranda vísar kærði í fyrsta lagi til þess að í tímaskýrslu hans megi finna á umtalsvert löngu tímabili níu tilvik þar sem skráð hafi verið samtöl kærða við stjórnarformann C ehf., en þar af séu tvö símtöl frá stjórnarformanninum. Vísar kærði til þess að hann hafi metið það sem svo að samtölin þjónuðu hagsmunum kæranda og að aðilar hafi verið ásáttir um þá nálgun enda hafi verið fyrirhugaðir hluthafafundir í félaginu sem kærandi hafi haft áhyggjur af. Samkvæmt því hafi samskiptin gegnt mikilvægu hlutverki í að gæta hagsmuna kæranda á og í tengslum við fundina jafnframt því sem þau hafi stuðlað að því að kærði gæti sett sig inn í deilumálin. Verði því ekki séð að kærði hafi gert á hlut kæranda með þessari háttsemi auk þess sem kærandi gerði engar athugasemdir við símtölin á þeim tíma sem þau fóru fram.

Í öðru lagi vísar kærði til þess að málið hafi verið tiltölulega flókið og af þeim sökum hafi hann undirbúið vinnuskjal til að halda utan um helstu staðreyndir og hugleiðingar um málið. Á fundi aðila hafi málið verið rætt í þaula með tilliti til vinnuskjalsins þar sem farið hafi verið yfir helstu kosti og galla þeirra leiða sem legið hafi fyrir, til dæmis höfðun dómsmáls. Hafnar kærði því með öllu að kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um áherslur kærða fyrr en löngu síðar. Ítrekar kærði að á fundi aðila hafi verið farið ítarlega yfir málið og hvaða leiðir væru færar. Hafi þar komið fram að umtalsverð áhætta væri af rekstri dómsmáls, bæði með tilliti til reksturs og niðurstöðu. Hafi því verið ákveðið að halda áfram að nota úrræði stjórnsýslunnar og að setja þrýsting á stjórn félagsins til þess að semja um útgáfu nýs hlutafjár sem myndi renna til kæranda. Með þessu hafi á engan hátt verið gert á hlut kæranda.

Kærði hafnar því í þriðja lagi að hann hafi blekkt kæranda til að greiða reikninga. Bendir kærði á að ekkert liggi fyrir um slíkar blekkingar. Þvert á móti hafi reikningar verið gefnir út með tiltölulega reglulegu millibili og þeim fylgt sundurliðaðar tímaskýrslur. Þá hafi kærandi greitt þá reikninga sem málið varðar án athugasemda.

Í fjórða lagi hafnar kærði sjónarmiðum kæranda um að kærði hafi verið „úrræðalaus“, „reynslulítill“ og að hann hafi ekki ráðið við málið. Vísar kærði til þess að hér sé um órökstuddar ásakarnir að ræða og að þær séu ekki settar fram í tengslum við neina háttsemi sem á að hafa brotið gegn rétti kæranda.

Í fimmta lagi hafnar kærði málatilbúnaði kæranda um að kærði hafi látið glepjast af öðrum stjórnendum í félaginu og snúist á sveif með gagnaðilum. Vísar kærði til þess að framsetning kæranda að þessu leyti sé í besta falli röng en í versta falli sett fram í þeim tilgangi að blekkja nefndina. Bendir kærði á að þeir aðilar sem kærandi hafi deilt við séu tengdir honum fjölskylduböndum. Liggi einnig fyrir að kærandi hafi sjálfur lýst því í tölvubréfi að deiluefni málsins væru persónuleg.

Samantekið vísar kærði til þess að aðalkvörtunarefni kæranda felist í því að störf kærða hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að tilhæfulausir reikningar hafi verið gefnir út þar sem vinnan hafi verið „stefnulaus.“ Um þetta efni bendir kærði á að ráðgjöf hans hafi fyrst og fremst farið fram með símtölum eða tölvubréfasamskiptum við kæranda yfir langt skeið, sem og hagsmunagæslu gagnvart stjórn C ehf. og öðrum hluthöfun. Hafi kæranda verið umhugað að halda kostnaði við vinnu kærða í lágmarki og átt erfitt með að greiða útgefna reikninga. Kveðst kærði hafa sýnt viðleitni til þess að halda kostnaði í lágmarki að því marki sem hægt hafi verið með tilliti til þess að kærandi hafi krafist vinnu en oft hafi minni viðvik ekki verið rukkuð.

Kærði vísar einnig til þess að ágreiningsefni í máli kæranda hafi síður en svo verið skýr enda hafi kærandi lagt fram skjöl sem talið hafi næstum hundrað blaðsíður eftir fyrsta fund aðila. Þá hafi málið ekki verið einfalt meðal annars vegna þess að það varðaði að meginstefnu atvik sem voru orðin margra ára gömul er kærði kom að málinu.

Því er lýst að farin hafi verið sú leið að beita stjórn C ehf. þrýstingi til þess að ná fram hagsmunum kæranda sem og að koma á betri starfsferlum hjá stjórn félagsins. Hafi það meðal annars verið gert með því að beina erindum til D og E sem og með beinum samskiptum kærða við stjórnarformann félagsins. Þá hafi kæranda oft verið veitt ráðgjöf um hvernig hann ætti að haga sínum samskiptum við gagnaðila. Telur kærði að fagmannlega hafi verið staðið að veitingu þjónustu til kæranda enda engar athugasemdir gerðar við hana fyrr en seint á árinu 2020, þ.e. þegar nokkrir mánuðir voru liðnir frá því að viðskiptasambandi aðila var í raun lokið og enn voru útistandandi reikningar gagnvart kæranda.

Í samræmi við allt framangreint byggir kærði á að ósannað sé að hann hafi brotið gegn rétti kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Varðandi reikninga og fjárhæð þeirra byggir kærði á að allir reikningar endurspegli þá vinnu sem innt hafi verið af hendi yfir langt skeið og umbeðin hafi verið af hálfu kæranda. Þá hafi tímagjaldið verið hóflegt. Vandfundið sé að finna þann lögmann sem hefði kynnt sér málsgögn kæranda og verið í ítrekuðum samskiptum við hann á tímabilinu sem spanni eitt ár án þess að kostnaðurinn yrði tæplega 600.000 krónur án virðisaukaskatts. Samkvæmt því hafi fjárhæðir reikninga verið hófsamar miðað við umfang málsins og það langa tímabil sem þeir taka til. Þá séu tímaskýrslur kærða ekki óeðlilegar.

Kærði vekur athygli á að útistandandi reikningar séu að fjárhæð 201.500 krónur. Kveðst kærði hafa brugðist við athugasemdum kæranda af kurteisi vegna útistandandi reikninga. Þannig hafi þeir verið teknir úr innheimtu og reynt að leysa málið, meðal annars með boði um afslátt umfram skyldu. Er vísað til þess að kærandi hafi hins vegar ekki svarað því boði. Byggir kærði á að faglega hafi verið staðið að reikningagerð og að endurgjald reikninga endurspegli raunverulega vinnu og séu því ekki óhóflegir.

Í samræmi við framangreint mótmælir kærði endurgreiðslukröfu kæranda í málinu. Mótmælir kærði sérstaklega málatilbúnaði kæranda um þetta efni og bendir á að umbjóðandi lögmanns eigi ekki endurkröfurétt vegna greiddra reikninga þó að tilskildum árangri sé ekki náð. Vísar kærði til þess að staðreyndin séu sú að þegar tveir deila þá vinni sjaldnast báðir aðilar fullnaðarsigur. Þurfi lögmenn aðilanna almennt ekki að bera hallann af því við útgáfu reikninga.

Vísað er til þess að hinir greiddu reikningar fyrir ráðgjöf og þjónustu kærða hafi verið greiddir athugasemdalaust og án fyrirvara. Engar haldbærar og málefnalegar athugasemdir hafi borist um þá vinnu sem reikningarnir grundvallast á. Samkvæmt því beri að hafna kröfu kæranda um endurgreiðslu.

Að endingu ítrekar kærði kröfu um málskostnað. Er á það bent að kvörtun sé fullkomlega tilefnislaus auk þess sem verulega skorti á að hún sé rökstudd með fullnægjandi hætti. Þá hafi umtalsverður tími farið í að svara kvörtuninni.

 

 

Niðurstaða

                                                                          I.

Svo sem fyrr er rakið verður að mati nefndarinnar að skilja upphaflegan málatilbúnað í erindi kæranda til nefndarinnar með þeim hætti að þess sé annars vegar krafist að kærða verði gert að endurgreiða kæranda greidda þóknun að fjárhæð 496.000 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er jafnframt tiltekið að nefndin vísi ágreiningsmáli um endurgjald frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Fyrrgreindar heimildir er afdráttarlausar um skyldu nefndarinnar til að vísa ágreiningsmálum um endurgjald á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 frá ef þær berast meira en ári eftir að kostur var á að koma slíku málum á framfæri.

Í málsatvikalýsingu að framan var gerð grein fyrir þeim fimm reikningum sem lögmannsstofa kærða gerði á F ehf., sem kærandi er í fyrirsvari fyrir, vegna lögmansstarfa á tímabilinu frá 25. september 2019 til og með 3. desember 2020. Af bókhaldsgögnum sem kærði hefur lagt fyrir nefndina verður jafnframt ráðið að tveir elstu reikningarnir hafi verið greiddir en að hinir þrír séu enn ógreiddir og í vanskilum. Samkvæmt því og með hliðsjón af upphaflegu erindi kæranda til nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að krafa hans um endurgreiðslu, að fjárhæð 496.000 krónur, taki til þeirra tveggja reikninga sem fyrst voru gefnir út og greiddir voru af einkahlutafélagi kæranda.

Vegna kröfugerðar kæranda kemur því annars vegar til skoðunar reikningur frá lögmannsstofu kærða nr. 10590 sem gefinn var út þann 25. september 2019 en hann var að heildarfjárhæð 167.400 krónur. Hins vegar er um að ræða reikning nr. 11010, að heildarfjárhæð 348.750 krónur, sem gefinn var út þann 20. mars 2020. Ágreiningslaust er að tímaskýrslur fylgdu með reikningunum til kæranda við útgáfu þeirra og að þeir voru greiddir athugasemdalaust.

Að mati nefndarinnar er ekki unnt að miða við annað, vegna endurgreiðslukröfu kæranda, en að kærandi, fyrir hönd F ehf., hafi þegar í september 2019 og mars 2020 átt þess kost að koma ágreiningsmáli, vegna þess endurgjalds sem kærði áskildi sér vegna starfa sinna samkvæmt fyrrgreindum reikningum, á framfæri við nefndina. Samkvæmt því var frestur til að leggja ágreiningsmálið fyrir nefndina liðinn er kæranda lagði fram erindi sitt þann 25. maí 2021, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður því að vísa endurkröfu kæranda, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

 

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá skal lögmaður ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði, sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna.

Líkt og áður er rakið verður málatilbúnaður kæranda fyrir nefndinni ekki skilinn með öðrum hætti en að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi hans við hagsmunagæslu í þágu kæranda. Hefur kærandi um þá háttsemi vísað til þess að kærði hafi gengið gegn fyrirmælum kæranda um að eiga ekki í samskiptum við stjórnarformann C ehf., að vinna kærða hafi verið stefnulaus og að kærandi hafi ekki verið upplýstur um áherslur kærða í hagsmunagæslunni fyrr en á síðari stigum. Jafnframt því hafi kærði blekkt kæranda til að greiða útgefna reikninga, reynst úrræðalaus í hagsmunagæslunni og snúist á sveif með gagnaðilum kæranda við vinnslu málsins.

Um þetta efni er þess að gæta að engra gagna nýtur við fyrir nefndinni sem fært gætu stoð undir þær athugasemdir sem kærandi hefur fært fram vegna lögmannsstarfa kærða. Fyrir liggur að kærði annaðist hagsmunagæslu í þágu kæranda frá ágústmánuði 2019 til og með desembermánaðar 2020 og áttu aðilar á þeim tíma bæði í munnlegum og skriflegum samskiptum. Af málsgögnum verður ekki ráðið að kærandi hafi hreyft eða haft uppi nokkrar athugasemdir vegna starfa kærða fyrr en leið undir lok samningssambands aðila. Óskaði kærandi þannig fyrst eftir í tölvubréfi til kærða, dags. 6. janúar 2021, að kærði hefði ekki frekari samskipti við stjórnarformann C ehf. sem kærði og staðfesti í tölvubréfi til kæranda þann 14. sama mánaðar. Ekki verður litið framhjá því að á þeim tíma voru þrír reikningar sem lögmannsstofa kærða hafði gefið út vegna starfa í þágu kæranda ógreiddir og í innheimtu, þ.e. reikningar sem útgefnir höfðu verið 11. júní, 28. ágúst og 3. desember 2020.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið sem og með hliðsjón af atvikum öllum og þeim takmörkuðu gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina, verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá er ekki annað fram komið í málinu að áliti nefndarinnar en að kærði hafi verið fær um að sinna því verkefni sem hann tók að sér í þágu kæranda af kunnáttu og fagmennsku, sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, og að hann hafi neytt lögmætra úrræða, í samráði við kæranda, til að gæta þeirra hagsmuna sem um var að tefla í málinu, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998. Með vísan til þeirrar niðurstöðu verður kröfu kæranda á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, A, um að kærða, B lögmanni, verði gert að endurgreiða kæranda þóknun að fjárhæð 496.000 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er vísað frá nefndinni.

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson