Mál 5 2021

Mál 5/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 13. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2021:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. mars 2021 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 18. mars 2021 og barst hún þann 4. maí 2021. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 6. maí 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar dagana 31. maí og 23. ágúst 2021. Viðbótarathugasemdir kærða vegna málsins bárust til nefndarinnar dagana 12. júlí og 17. september 2021. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur í málinu að aðilar áttu í samstarfi á árunum 2018 – 2020 en í því samstarfi fólst meðal annars leiga á sameiginlegu skrifstofurými. Ágreiningur er á hinn bóginn um hversu náið samstarfið var, þar á meðal til hvaða verkefna og viðskiptamanna aðila það náði.

Kvörtun í máli þessu byggir á því að kærði hafi í heimildarleysi þann 18. mars 2020 nálgast nánar tilgreind gögn í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/20xx, jafnan nefnt „málið“ í málatilbúnaði aðila, í hinu sameiginlega skrifstofurými og skannað þau inn á eigið netfang. Ágreiningslaust er að á þeim tíma fór kærandi með hagsmunagæslu í þágu C í málinu og hafði umrædd gögn í sínum vörslum á þeim grunni. Byggir kærandi á að fyrrgreind háttsemi kærða hafi verið í andstöðu við nánar tilgreind ákvæði siðareglna lögmanna en kærði hefur hafnað þeim málatilbúnaði kæranda.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila er jafnframt ágreiningur þeirra í milli um ýmis önnur atriði og þætti sem vörðuðu samstarf þeirra en hafa enga þýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins. Að því marki sem sá ágreiningur varðar ekki kvörtunarefni málsins kemur hann því ekki til skoðunar og úrlausnar í máli þessu.

II.

Kærandi krefst þess að kærði sæti áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða vegna rekstur málsins fyrir nefndinni.

Um kvörtunarefni vísar kærandi til þess að kærði hafi farið inn á skrifstofu fulltrúa kæranda, náð þar í möppur sem innihéldu dómskjöl í dómsmáli sem kærandi hafi rekið fyrir umbjóðanda sinn og skannað inn helstu skjöl málsins án leyfis kæranda eða umbjóðanda hans.

Um tildrög málsins vísar kærandi til þess að hann og kærði hafi deilt skrifstofurými að D í Reykjavík. Hafi þar verið þrjár skrifstofur, þ.e. tvær skrifstofur sem lögmannsstofa kærða hafi nýtt en ein sem kærði hafi notað undir sinn rekstur. Er því lýst að kærandi hafi leyft kærða að flytja dómsmál fyrir umbjóðendur sína en þegar fulltrúi hans hafi fengið réttindi til að flytja mál í héraði hafi hann tekið við málflutningi fyrir héraðsdómstólum af kærða. Hafi það vakið gremju hjá kærða þar sem hann hafi ekki fengið lengur verkefni frá kæranda.

Kærandi vísar til þess að hann hafi þó leyft kærða að flytja prófmál fyrir Landsrétti í hans umboði en um hafi verið að ræða umbjóðanda kæranda til nokkurra áratuga, þ.e. C. Hafi kærandi staðfest það leyfi með tölvubréfi til Landsréttar þann 5. febrúar 2020 þar sem komið hafi fram að málflutningurinn yrði í nafni og á ábyrgð kæranda en á kostnað viðkomandi umbjóðanda gagnvart kæranda nema um annað yrði samið.

Því er lýst að kærði hafi sent tölvubréf til kæranda þennan sama dag þar sem komið hafi fram að kröfur kæranda um greiðslu málskostnaðar hafi ekki samræmst samkomulagi kærða við viðkomandi umbjóðanda. Getur kærandi þess jafnframt að hann hafi ekki veitt kærða leyfi til þess að krefjast greiðslu þóknunar beint til sín. Þrátt fyrir það hafi kærði flutt málið nr. xxx/20xx fyrir Landsrétti sem prófmaður í umboði kæranda og sent reikning vegna þeirrar vinnu beint til viðkomandi umbjóðanda, án þess að tilkynna kæranda þar um.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi síðan gengið alltof langt í mars 2020. Hafi kærði þannig farið inn á skrifstofu fulltrúa kæranda að kvöldi þann 18. mars 2020, náð í möppur sem innihéldu dómskjöl í máli nr. E-xxx/20xx, þ.e. svonefndu máli, sem kærandi hafi rekið fyrir sama umbjóðanda og áður greinir en í öðru máli. Er því lýst að kærði hafi að því búnu farið með möppurnar inn í prentherbergi skrifstofunnar og notað skanna í eigu félags kæranda til þess að skanna öll helstu dómskjöl málsins inn á netfang sitt, x@x.is. Hafi þar verið um að ræða stefnu, matsbeiðni, greinargerðir gagnaðila og yfirmatsbeiðnir.

Kærandi lýsir því að kærði hafi í framhaldi af því farið með möppurnar á sinn stað á skrifstofu fulltrúans. Fyrir þessari háttsemi hafi kærði alls ekki haft leyfi, hvorki frá kæranda, fulltrúa hans né umbjóðanda kæranda. Raunar skipti engu hver afstaða umbjóðanda kæranda hafi verið til þessa atriðis, eða hvort slíkt hefði verið umbeðið af honum, enda alvarlegt að fara í leyfisleysi inn á skrifstofu fulltrúa annars lögmanns og skanna þar inn dómskjöl í dómsmáli sem hann rekur, án leyfis lögmannsins. Sé slík háttsemi óafsakanleg með öllu.

Kærandi lýsir því að við ótengda vinnu hafi komið í ljós fyrir tilviljun að kærði hefði skannað tilgreind skjöl á netfang sitt. Vísar kærandi til þess að fyrirsvarsmanni C hafi verið tilkynnt um það efni símleiðis og hafi þá verið upplýst að stofnunin hefði ekki beðið kærða um slíkt eða falið honum einhverja hagsmunagæslu í málinu. Eftir þetta leiða atvik hafi viðkomandi umbjóðandi hins vegar leitað til nýs lögmanns. Telur kærandi að þetta efni hafi haft áhrif á þá ákvörðun en í öllu falli sé ljóst að orðspor kæranda og lögmannsstofu hans hafi þurft að finna fyrir þessari háttsemi kærða.

Kærandi byggir á að kærði hafi með þessari háttsemi brotið gegn siðareglum lögmanna.

Um það efni vísar kærandi í fyrsta lagi til þess að kærði hafi brotið gegn IV. kafla siðareglna lögmanna, sbr. einkum 1. mgr. 25. gr. þeirra. Þannig hafi kærði sýnt kæranda og fulltrúa hans enga virðingu þegar hann fór í heimildarleysi inn á skrifstofu fulltrúans og skannaði í heimildarleysi inn skjöl í dómsmáli sem kærandi hafi rekið fyrir umbjóðanda sinn. Byggir kærandi á að þessi háttsemi hafi verið mjög ámælisverð og að engu hefði breytt þótt fyrirsvarsmaður C hefði beðið kærða um að skanna inn skjölin. Hafi kærða þannig ávallt borið að biðja kæranda um leyfi þar um eða að minnsta kosti láta hann vita, sbr. 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna. Það hafi kærði hins vegar ekki gert.

Í öðru lagi bendir kærandi á að kærði hafi mátt vita að kærandi væri bundinn af 3. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna, þ.e. um að láta ekki óviðkomandi hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum sem varðað gætu umbjóðendur hans. Engu að síður hafi kærði tekið þá ákvörðun að fara inn á skrifstofu fulltrúa kæranda eftir lokun skrifstofunnar og sækja þar möppur með málsgögnum í fyrrgreindu máli og skanna þau inn á sig.

Í þriðja lagi byggir kærandi á að heiður lögmannastéttarinnar hafi þurft að líða vegna þessa máls, sbr. 2. gr. siðareglnanna. Hafi kærandi þannig þurft að tilkynna viðkomandi umbjóðanda, C, um hvað hefði átt sér stað. Megi vænta þess að tiltrú stofnunarinnar og starfsmanna hennar á stéttinni hafi ekki aukist við að fá þær upplýsingar.

Í fjórða lagi vísar kærandi til 1. gr. siðareglnanna og byggir á að hún sé meira en bara stefnuyfirlýsing. Ekki verði séð að kærði hafi eflt rétt og hrint órétti með því að skanna umrædd skjöl inn á sig í leyfisleysi.

Í fimmta og síðasta lagi vísar kærandi til 44. gr. siðareglnanna, þ.e. um að þær séu ekki tæmandi taldar. Sé þannig ljóst í málinu að kærði hafi ekki sýnt af sér góða lögmannshætti með háttsemi sinni.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að málatilbúnaður kærða sé fullur af rangfærslum og ósönnuðum fullyrðingum.

Kærandi mótmælir því að hann hafi beðið kærða að líta eftir málinu og að það hafi verið á lista yfir mál sem kærandi hafi óskað eftir að yrði gætt af hálfu kærða. Bendir kærandi á að kærði hafi sjálfur sett upp nefndan lista í tölvupósti til kæranda, dags. 27. apríl 2018, þar sem tiltekin hafi verið mál sem kærði myndi flytja áður en fulltrúi kæranda fengi málflutningsréttindi „ef vilji stæði til þess“. Samkvæmt því sé það rangt að listinn hafi haft að geyma mál sem kærandi vildi að gætt yrði af hálfu kærða um allan ókominn tíma. Á engan hátt verði þannig séð hvernig tölvubréfasamskiptin frá 2018 geti réttlætt þá háttsemi kærða að skanna inn skjöl í heimildarleysi árið 2020.

Kærandi mótmælir því að kærði hafi fengið sendar upplýsingar um framgang málsins í tölvupósti og að kærandi hafi kynnt efni málsins fyrir kærða og rætt það ítrekað. Vísar kærandi til þess að hér sé um ósannaðar fullyrðingar kærða að ræða. Þá sé það rangt að kærandi hafi ítrekað rætt málið við kærða, að kærði hafi fengið tölvubréf um framgang málsins eftir að hann setti það sjálfur á lista þann 27. apríl 2018 og að kærði hafi verið beðinn um að fylgjast með málinu.

Kærandi mótmælir því að aðilar hafi verið í mjög nánu samstarfi. Bendir kærandi á að þótt til hafi staðið að fara í samstarf á árinu 2018 þá hafi það aldrei orðið raunin. Samkvæmt því hafi samstarf aðila ekki orðið nánara en það að skipta húsnæði á milli sín jafnframt því sem kærði hafi fengið verkefni frá kæranda sem greitt hafi verið fyrir.

Kærandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að sonur hans hafi verið viðstaddur hina umþrættu skönnun kærða. Bendir kærandi á að skjölin hafi verið skönnuð utan opnunartíma skrifstofu kæranda. Hafi sonur og fulltrúi kæranda ekki verið á staðnum og ekki upplýstur um áform kærða.

Kærandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að kærði hafi haft fulla heimild til að skanna umrædd skjöl inn. Bendir kærandi á að kærði hafi ekki lagt fram nein skjöl þessari fullyrðingu til stuðnings. Er jafnframt vísað til þess að tölvubréfasamskipti kærða og fyrirsvarsmanns C staðfesti ekki að kærði hafi verið beðinn um að „kíkja“ á málið, skanna inn helstu skjöl þess og að fyrirsvarsmaðurinn hafi verið upplýstur um það. Vísar kærandi til þess að það eina sem fyrirsvarsmaðurinn staðfesti sé að þetta leiða mál hafi ekki verið ástæða þess að C leitaði til annars lögmanns en kæranda.

Kærandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að gögn málsins hafi verið í opnu rýmu í ljósritunarherbergi sameiginlegrar skrifstofu aðila. Vísar kærandi um þetta efni til fyrirliggjandi ljósmynda sem hann kveður ekki uppstillingu líkt og kærði haldi fram án rökstuðnings. Þá byggir kærandi á að rangt og ósannað sé að kærða hafi verið bent á hvar gögnin í umræddu máli væru af starfsmönnum kæranda.

Kærandi mótmælir því að ekki hafi náðst í hann vegna málsins og því hafi kærði verið rétt að skoða málið til að forða réttarspjöllum. Byggir kærandi á að hér fari kærði með rangt mál en bendir á að ef ekki hafi náðst í hann hafi kærða verið rétt að hafa samband við fulltrúa kæranda í stað þess að fara í heimildarleysi inn á skrifstofu fulltrúans og skanna viðkomandi skjöl. Þá vísar kærandi til þess að hvorki hann né fulltrúi hans hafi notað tölvupóstpóstfang með endingunni x.is líkt og kærði vísi ranglega til í málatilbúnaði sínum.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er að finna ýmis önnur mótmæli aðilans við atvikalýsingu í málatilbúnaði kærða. Þar sem þau mótmæli lúta ekki með beinum hætti að sakarefni málsins verður ekki frekari grein gerð fyrir þeim í máli þessu.

Kærandi kveðst hafna öllum tilgátum kærða varðandi tilgang kvörtunar málsins. Ítrekar kærandi að hvorki hann né C hafi falið kærða hagsmunagæslu í málinu. Þá hafi kærði ekki verið beðinn um að skanna skjölin.

Kærandi ítrekar að kærði hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji fullyrðingar hans um að hann hafi verið beðinn um að skanna inn skjölin. Kærði hafi ekki heldur lagt fram gögn sem styðji það að einhver hafi falið honum að fylgjast með gangi viðkomandi máls. Er á því byggt að gegn mótmælum kæranda hafi innihaldslausar og ósannaðar fullyrðingar kærða ekkert vægi í málinu og sé því óhjákvæmilegt að áminna kærða fyrir háttsemina.

III.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða honum þóknun vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði kveðst hafna málatilbúnaði kæranda alfarið og þeirri kröfu að hann verði áminntur af nefndinni. Hafnar kærði því að hann hafi skannað inn gögn í hinu svokallaða máli án heimildar og að sá verknaður sé brot á lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Er vísað til þess að kærandi hafi sjálfur beðið kærða um að líta eftir málinu við upphaf samstarfs þeirra og hafi málið verið á lista ásamt öðrum málum sem kærandi hafi viljað að gætt yrði að af hálfu kærða. Kveðst kærði þannig hafa fengið upplýsingar um framgang málsins í tölvubréfum þegar kærandi hafi verið fjarverandi vegna veikinda þannig að unnt væri að fylgjast með gangi þess. Þá hafi kærandi kynnt efni málsins fyrir kærða og rætt það ítrekað við hann.

Vísað er til þess að fyrirsvarsmaður C hafi rætt málið við kærða á meðan kærði hafi annast hagsmunagæslu fyrir stofnunina í öðru máli. Hafi þá verið til skoðunar hjá C að fela málið öðrum lögmanni til formlegrar hagsmunagæslu sem síðar hafi orðið raunin.

Kærði lýsir því að kvörtun í málinu hafi komið honum verulega á óvart. Þannig hafi aðilar verið í nánu samstarfi á þeim tíma sem um ræði og málið sérstaklega verið tilgreint af kæranda sem mál sem kærði myndi að öllum líkindum flytja. Þá kveðst kærði ekki muna betur en að sonur kæranda hafi verið á staðnum við skönnun skjalanna og því upplýstur um framkvæmdina. Samkvæmt því hafi kærði haft fulla heimild til að skanna skjölin sem hann hafi gert án athugasemda.

Kærði lýsir því að hann hafi borið kvörtun í málinu undir fyrirsvarsmann C. Hafi fyrirsvarsmaðurinn tjáð kærða að ekki væri unnt að skilja af hverju málið væri fyrir nefndinni. Jafnframt því hafi fyrirsvarsmaðurinn tilkynnt kæranda um að rætt hefði verið um málið við kærða og að í því samtali hefði kærði verið beðinn um að kíkja á það. Á þeim tíma hafi fyrirsvarsmaðurinn verið með það til skoðunar að fela öðrum lögmanni hagsmunagæslu í málinu, þar með talið kærða. Vísar kærði um þetta efni til tölvubréfasamskipta frá 28. og 29. apríl 2021 þar sem fyrirsvarsmaðurinn kalli málið „at“ kæranda og að það sé óviðkomandi C. Samkvæmt því byggir kærði á að ekkert brot hafi verið framið.

Kærði vísar til þess að umrædd gögn hafi verið í opnu rými í ljósritunarherbergi sameiginlegrar skrifstofu aðila. Hafi kærða verið bent á hvar gögnin væru af starfsmönnum kæranda.

Kærði leggur áherslu á að aðilar hafi verið í samstarfi á þessum tíma og rekið saman skrifstofu. Þannig hafi kærandi meðal annars sett kærða á vefsíðu hans til merkis um samstarfið. Viðræður hafi einnig staðið um nokkurn tíma um að formsetja samstarfið og aðilar skipst á samkomulagsdrögum þar að lútandi. Samkvæmt því hafi aðilar átt í nánu samstarfi vitandi að rekstur þeirra myndi renna saman á einhverjum tíma. Við innréttingu skrifstofu hafi aðilar ákveðið að hafa sameiginlegan prentara/skanna og að engir lásar væru á skrifstofum þeirra. Mikill samgangur hafi því verið á milli aðila. Vísar kærði einnig til þess að sonur kæranda hafi enga meinbugi talið á því að fara í gegnum skjöl sem kærði hafi skannað inn í sameiginlegum prentara/skanna þeirra. Ljóst megi vera að sonurinn hafi skoðað fjölmörg og jafnvel öll skjöl sem kærði hafi skannað inn. Þá sé sonurinn, og eftir atvikum kærandi sjálfur, augljóslega enn með aðgang að þessum skönnuðu skjölum. Megi líta til þess til marks um hið nána samstarf sem verið hafi á milli aðila á þessum tíma.

Varðandi umþrætta skönnun skjala vísar kærði til þess að C hafi ekki viljað leita til kæranda lengur og að fyrirsvarsmaður stofnunarinnar og kærði hafi því rætt um stöðu á málinu. Hafi fyrirsvarsmaðurinn þannig haft áhyggjur af stöðu málsins og hvort stofnunin gæti hugsanlega orðið fyrir réttarspjöllum vegna veikinda og mistaka kæranda. Þannig hafi fyrirsvarsmaðurinn haft sérstakar áhyggjur af því að gögn gætu tapast í málinu og það væri þegar orðið gríðarlega kostnaðarsamt. Samkvæmt því hafi fyrirsvarsmaðurinn beðið kærða að kíkja á málið en ekki þá viljað ákveða hvort kærða yrði falið málið formlega fyrr en fyrri málarekstri væri lokið.

Kærði kveðst hafa kíkt á málið í því skyni að afla upplýsinga um það og hvar það væri statt. Til þess, og til að forða því að gögn myndu glatast, hafi kærði skannað undirritaðar stefnur, greinargerðir og matsbeiðnir inn á tölvupóstfang sitt. Hafi gögnin þá legið í kassa í ljósritunarherbergi skrifstofunnar en ekki á skrifstofu fulltrúa kæranda. Jafnframt því hafi fulltrúinn verið upplýstur um framkvæmdina, líkt og áður greinir. Þá lýsir kærði því að hann hafi í kjölfar þess rætt við fyrirsvarsmanninn um málið. Á síðari stigum hafi hins vegar öðrum lögmanni verið falin hagsmunagæsla í málinu.

Í samræmi við framangreint kveðst kærði hafna alfarið ásökunum og ávirðingum kæranda enda hafi hann verið beðinn um af kæranda og fyrirsvarsmanni C að halda utan um málið og kíkja á það. Hafi skönnun gagnanna einungis verið gerð til að framkvæma það sem kærði hafi verið beðinn um, en málið hafi verið rætt við fyrirsvarsmanninn bæði fyrir og eftir þetta atvik.

Samkvæmt því byggir kærði á að hann hafi haft fulla heimild til að skanna inn gögnin í málinu enda hafi það verið gert til að kanna stöðu málsins og til athugunar á því hvort viðkomandi umbjóðandi væri að verða fyrir réttarspjöllum í því. Kveðst kærði einungis hafa verið bundinn trúnaðarskyldum lögmanns gagnvart C og að hann hafi í hvívetna farið með upplýsingar um málið og gögnin í samræmi við það. Engin brot á lögum nr. 77/1998 eða siðareglum lögmanna hafi átt sér stað. Þá eigi ekkert ákvæði siðareglna lögmanna, sem kærandi vísi til, við um þá háttsemi sem umþrætt sé í málinu.

Kærði hafnar því að kærandi hafi orðið fyrir tjóni við þessa skönnun. Liggi þannig fyrir að C leitaði til annarra lögmanna út af öðrum ástæðum en kærandi haldi fram. Hafi það ekkert því haft með skönnun á skjölunum að gera. Þá liggi fyrir að C hafi ekki kvartað undan kærða.

Byggir kærði á að tilgangur kæranda með kvörtuninni sé að skapa ólögmætan grunn til heimtu skaðabóta.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar er vísað til þess að fullyrðingar kæranda um að kærði hafi sjálfur sett upp viðkomandi málalista séu ósannar og rangar. Vísar kærði til málsgagna um að kærandi hafi falið honum að gæta að og líta eftir málinu. Hafi því verið eðlilegt fyrir kærða að kíkja á málið og skanna inn gögn þess svo að þau týndust ekki. Hafi það verið sérstaklega eðlilegt í ljósi þess að viðskiptamaður málsins, fyrirsvarsmaðurs C, hafi rætt málið við kærða og óskað eftir að kíkt yrði á það. Hafi kærði þannig viðhaft góða lögmannshætti í þessu tilliti, þ.e. hann hafi gætt að því að mál viðskiptamanns, sem hann hafi verið í hagsmunagæslu fyrir í öðru máli, yrði ekki fyrir réttarspjöllum. Ítrekar kærði einnig að sönnunarbyrði um atvik hvíli á kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar er einnig að finna ýmis önnur mótmæli aðilans við málatilbúnaði kæranda. Þar sem þau mótmæli lúta ekki með beinum hætti að sakarefni málsins verður ekki frekari grein gerð fyrir þeim í máli þessu.

Að öðru leyti kveðst kærði mótmæla málatilbúnaði kæranda sem röngum, ósönnuðum eða málinu óviðkomandi. Hafnar kærði því þannig að hann hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 eða siðareglum lögmanna í störfum sínum. Þá ítrekar kærði kröfu um málskostnað úr hendi kæranda.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku, sbr. 2. mgr. 1. gr. Þá er tiltekið í 2. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í IV. kafla siðareglna lögmanna er mælt fyrir um innbyrðis samskipta lögmanna. Er þar tiltekið í 1. mgr. 25. gr. að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þá kemur fram í 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna að ef lögmanni sé falið verkefni, sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skuli hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar.

II.

Kvörtun kæranda í málinu er á því reist að kærði hafi í heimildarleysi þann 18. mars 2020 nálgast nánar tilgreind gögn héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx, sem voru í vörslu kæranda á grundvelli hagsmunagæslu hans í málinu í þágu C, og skannað þau inn á eigið netfang. Er á því byggt að kærði hafi ekki haft nokkra heimild til að fara í tilgreind gögn og hvað þá skanna þau inn að kæranda forspurðum. Hafi háttsemi kærða farið í bága við fyrrgreind ákvæði siðareglna lögmanna en kærandi hefur einnig í málatilbúnaði sínum vísað til 3. mgr. 40. gr. og 44. gr. siðareglnanna, þ.e. annars vegar um að lögmaður skuli ekki láta óviðkomandi hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum er varðað geta skjólstæðing hans og hins vegar um að siðareglurnar skuli ekki skoðast sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.

Kærði hefur á hinn bóginn mótmælt málatilbúnaði kæranda og á því byggt að hann hafi nálgast gögn viðkomandi héraðsdómsmáls og skannað þau á grundvelli heimildar. Hefur kærði þannig vísað til þess að aðilar hafi átt í nánu samstarfi þegar hin umþrætta háttsemi fór fram sem náð hafi allt aftur til ársins 2018. Hafi kærandi þannig beðið kærða um að líta eftir málinu við upphaf samstarfs þeirra og málið verið á lista ásamt öðrum málum sem kærandi hafi viljað að gætt yrði af hálfu kærða. Jafnframt því hafi kærði fengið upplýsingar um framgang málsins í tölvubréfum í fjarveru kæranda. Auk þess hafi fyrirsvarsmaður viðkomandi umbjóðanda, þ.e. C, rætt málið við kærða á umræddum tíma og óskað eftir að kærði myndi kanna stöðu þess og líta eftir því svo að stofnunin yrði ekki fyrir réttarspjöllum í málinu. Þá hafi fulltrúi kæranda verið viðstaddur hina umþrættu háttsemi og engar athugasemdir gert.

Af málsgögnum verður ekki ráðið að samþykki kæranda hafi legið til grundvallar þeirri háttsemi kærða sem kvörtunarefni tekur til, en fyrir liggur að kærandi fór með hagsmunagæslu í þágu C í málinu nr. E-xxx/20xx er atvik máls áttu sér stað þann 18. mars 2020. Á grundvelli þeirrar hagsmunagæslu hafði kærandi í vörslum sínum skjöl málsins og hvíldi því jafnframt sú skylda á honum að láta ekki óviðkomandi hafa aðgang að þeim, sbr. 3. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna. Þótt aðilar hafi haft með sér samstarf að nokkru leyti á umræddum tíma, þótt mikill ágreiningur sé á milli aðila um hvert umfang þess hafi í reynd verið, verður ekki leitt af málsgögnum að kærði hafi haft heimild til aðgangs að gögnunum á grundvelli slíks samstarfs. Enn síður verður talið að mögulegt samtal aðila um héraðsdómsmálið við upphaf samstarfsins á árinu 2018 hafi veitt kærða heimild til aðgangs og skjölunar gagnanna um tveimur árum síðar.

Að mati nefndarinnar hefur ekki þýðingu varðandi sakarefni málsins hvort eða að hvaða leyti C kann að hafa óskað eftir aðkomu kærða að málinu í marsmánuði 2020 enda hafði réttarsambandi stofnunarinnar og kæranda þá ekki verið slitið og kærandi því enn með á höndum hagsmunagæslu í þágu stofnunarinnar í áðurgreindu héraðsdómsmáli, sbr. einnig til hliðsjónar 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna. Í slíku tilviki hefði að áliti nefndarinnar verið í samræmi við góða lögmannshætti af hálfu kærða að upplýsa kæranda um hugsanlegar beiðnir viðkomandi umbjóðanda um skoðun málsins og veita með því kæranda nauðsynlegar upplýsingar svo unnt væri að taka upplýsta afstöðu til slíks efnis. 

Fyrir liggur að ágreiningur er á milli aðila um hvort fulltrúi kæranda hafi verið viðstaddur hina umþrættu háttsemi kærða þann 18. mars 2020. Hvað sem þeim ágreiningi líður verður ekki fram hjá því litið að ekki liggur fyrir að kærandi, sem fór með hagsmunagæslu í viðkomandi héraðsdómsmáli en ekki fulltrúi hans, hafi verið upplýstur um háttsemina og  veitt samþykki fyrir aðgangi kærða að gögnunum og skjölun þeirra af hans hálfu. Á grundvelli málsgagna verður að áliti nefndarinnar að leggja til grundvallar að skort hafi á skýra heimild kærða til þeirrar háttsemi sem kvörtunarefni tekur til. Með hinni umþrættu háttsemi sýndi kærði ekki þá góðu samvinnu og virðingu í framkomu gagnvart kæranda sem áskilin er í 1. mgr. 25. gr. siðareglnanna og telst hún aðfinnsluverð. Með hliðsjón af atvikum öllum verður hins vegar ekki talið að háttsemi kærða að þessu leyti hafi verið í andstöðu við aðrar þær greinar siðareglna lögmanna sem kærandi hefur vísað til í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.

Það athugast að kærði hefur borið því við í málinu að háttsemi kæranda hafi með ýmsum hætti verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus kærði að lýsa hinum ætluðu brotum kæranda að þessu leyti í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna kvörtunar kæranda til nefndarinnar samkvæmt áðurgreindri 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður kærða að því leyti því ekki til úrlausnar í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að fara í og skanna inn nánar tilgreind dómskjöl sem kærandi, A lögmaður, hafði í vörslum sínum vegna hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns, án þess að leita skýrrar heimildar hans, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson