Mál 9 2021

Mál 9/2021

Ár 2021, 30. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2021:

 

A

gegn

B lögmanni

 

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. maí 2020 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærðu, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærðu í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 10. maí 2021 og barst hún þann 28. maí s.á. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi þann 4. júní s.á. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust nefndinni þann 21. júní 2021 og voru þær kynntar kærðu með bréfi 25. s.m. Lokaathugasemdir kærðu bárust 5. júlí og voru þær kynntar kæranda með bréfi 7. s.m. þar sem tilkynnt var að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar eða athugasemda af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi allra nefndarmanna til meðferðar málsins vegna tengsla þeirra við kærðu. Aðalmenn viku því allir sæti og varamenn komu í stað þeirra.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að þann 28. febrúar 2018 hafi kærandi leitað til kærðu og óskað eftir hagsmunagæslu í skilnaðarmáli við eiginmann sinn, C. Samkvæmt verksamningi milli aðila sem dagsettur er sama dag, fólst verkefnið í því að hafa samskipti við lögmann C, símleiðis, í tölvupóstum og á fundum, ganga frá fjárskiptasamningi, forsjársamningi vegna barna og almennri ráðgjöf í tengslum við skilnaðinn. Þá var jafnframt tekið fram að í verkinu fælist að gæta hagsmuna kæranda ef til dómsmáls kæmi og óska eftir opinberum skiptum til fjárslita ef þörf krefði. Kærandi var upplýstur um að tímagjald kærðu væri kr. 22.500 á klst., auk virðisaukaskatts.

 

Samkvæmt málsgögnum sendi kærða kæranda reikning að fjárhæð kr. 265.050 þann 12. júní 2018 og fylgdi honum ítarleg tímaskýrsla. Var reikningurinn greiddur af kæranda 14. júní s.á. Málsaðilum ber saman um að eftir að reikningurinn hafi verið greiddur hafi kærandi óskað eftir því að þóknun yrði gerð upp við lok hagsmunagæslunnar og kærða samþykkt það fyrirkomulag. Reikningur vegna vinnu matsmanns að fjárhæð kr. 469.988 var hins vegar sendur kæranda 5. mars 2020 og var hann greiddur 9. sama mánaðar.

 

Þrátt fyrir framangreint samkomulag um fyrirkomulag greiðslu sendi kærða kæranda tölvubréf 25. maí 2020 þar sem hún óskar eftir greiðslu upp í vinnuna við verkið og segir þar m.a:

„Annað, heldur þú að pabbi þinn geti eitthvað lánað þér svo þú getir greitt eitthvað upp í vinnuna?“

 

Kærandi svarar samdægurs og sendir tölvubréfið einnig á föður sinn:

„B var að hugsa hvort þú gætir greitt að hluta til lögfræðikostnað núna? Ég tengi ykkur hér með saman svo þið getið ákvarðað upphæð og hvernig greiðslunum verður háttað“.

 

Kærða sendir því næst tölvubréf á föður kæranda:

„Ég var aðeins að hugsa um smá greiðslu inn á verkið“.

 

Faðir kæranda tekur vel í beiðnina og svari hans til kærðu segir m.a.:

„Mér finnst það eðlilegt. Vinsamlegast sendu mér hvaða fjárhæð þú hefur í huga“.

 

Bera gögn málsins með sér að faðir kæranda hafi í framhaldinu greitt kærðu kr. 500.000 inn á málið þann 1. júní 2020 og að beiðni kærðu tvívegis eftir það, annars vegar 13. nóvember s.á. og 10. febrúar 2021. Gaf kærða út reikninga vegna þessa og samkvæmt reikningum útgefnum 2. júní og 13. nóvember 2020, var vísað til þess að um „innborgun inn á skilnaðarmál“ væri að ræða. Á reikningnum sem gefinn var út fyrir þriðju innágreiðslunni 10. febrúar 2021 var hins vegar vísað til þess að kr. 435.000 væru „hlutareikningur í skilnaðarmáli“ og kr. 65.000 „útlagður kostnaður, kærugjald til Landsréttar“.  

 

Faðir kæranda greiddi fyrstu innborgunina 1. júní 2020 og óskaði í kjölfarið eftir staðfestingu þess efnis og kvittun fyrir greiðslunni. Næsta innborgun var framkvæmd 13. nóvember s.á. og bera gögn málsins ekki með sér að útskýringar eða tímaskýrslur hafi verið sendar þegar innágreiðslunnar var óskað eða að kærandi hafi óskað eftir slíku. Eftir að önnur innágreiðslan var innt af hendi barst tölvubréf frá föður kæranda til kærðu þar sem segir:

„Var að millifæra 500 þúsund á D slf. (sjá viðhengi). Þætti vænt um að þú sendir kvittun/reikning á mig og A“.

 

Varðandi síðustu innborgunina þá sendi kærða tölvubréf til föður kæranda 5. febrúar 2021 þar sem segir:

„Ég vísa til fundar okkar hér rétt áðan. Má ég biðja þig að leggja inn á mig kr. 300.000-500.000“.

 

Faðir kæranda svaraði samdægurs:

„hef gert ráðstafanir til að greiða inná vegna vinnu kr. 500 þús þann 9. febrúar nk.“.

 

Innborgunin var framkvæmd af föður kæranda 10. febrúar 2021 og óskaði hann í framhaldinu eftir því í tölvubréfi til kærðu að kvittun yrði send á hann og kæranda.

 

Kærandi óskaði eftir tímaskýrslum og upplýsingum stöðu málsins frá kærðu um miðjan mars 2021 og fékk með tölvupósti kærðu 23. s.m. sendar vinnuskýrslur og upplýsingar um áfallinn kostnað við hagsmunagæsluna. Þar kom fram að skilnaðarmálið stæði í kr. 961.000, kæra til Landsréttar í kr. 527.000 og ágreiningsmálið kr. 3.665.750, en um var að ræða ágreiningsmál sem rekið var fyrir héraðsdómi undir málsnúmerinu Q-xxxx/20xx.

 

Kærða tiltók jafnframt að hún hygðist veita kæranda afslátt og því væri staðan þannig að kostnaður vegna skilnaðarmálsins næmi kr. 900.000, kæra til Landsréttar kr. 500.000 og ágreiningsmálið kr. 3.000.000, samanlagt kr. 4.400.000. Faðir kæranda svaraði kærðu samdægurs í tölvubréfi:

„búið var að greiða inn á þetta. Ertu með upphæðina eins og hún stendur í dag“.

 

 

Kærða svarar stuttu síðar:

„Því miður þá er þetta staðan eins og hún er í dag. Sjá vinnuskýrslur þar sem koma fram tímar sem búið er að greiða fyrir“.

 

Samkvæmt málsgögnum óskaði kærandi þann 12. apríl 2021 eftir því að eiga fund með kærðu ásamt föður sínum og fór sá fundur fram á skrifstofu kærðu 23. s.m. Ber aðilum að mestu leyti saman um það sem fram fór á fundinum en á honum tilkynnti kærandi kærðu að hún hefði í hyggju að skipta um lögmann, m.a. vegna þess að henni þótti kærða hafa komið aftan að sér með of háum reikning. Á fundinum lagði kærandi fram tilboð um greiðslu að fjárhæð kr. 3.459.988 til þess að ljúka málinu en því tilboði var hafnað af hálfu kærðu. Eftir fundinn barst kæranda tölvubréf frá kærðu sem innihélt bæði vinnuskýrslur og útgefna reikninga. Í tölvubréfinu kom fram að heildarkostnaður málsins væri kr. 6.795.860 og að skuld kæranda stæði í kr. 4.625.822. Hafði heildarkostnaður málsins lækkað frá fyrri pósti sem sendur var þann 23. mars s.á., þar sem kærða hafði breytt kerfisskráðu tímagjaldi í umsamið tímagjald og handskrifað leiðréttar fjárhæðir inn á sendar vinnuskýrslur. Í bréfinu tók kærða jafnframt fram að hún hefði nú fallið frá tilboði sínu um afslátt. Þann 2. maí 2021 sendi kærða kæranda reikning upphæð kr. 4.625.822 og er sú upphæð í samræmi við nýtt tímagjald án afsláttar. Greiddi kærandi umræddan reikning 18. maí s.á.

 

Samkvæmt vinnuskýrslum kærðu sem liggja fyrir nefndinni, er málinu skipt í þrennt. Fyrsta hluta málsins nefnir kærða skilnaðarmál og eru skráðir tímar vegna vinnu við þennan hluta 77,75, sem tekur til almennrar gagnaöflunar, verðmats vegna fasteignarinnar E 14, samskipti við lögmann gagnaðila, skiptafunda, samninga um forsjá barna, lögheimili þeirra, umgengni foreldra o.fl. Á annan hluta málsins, sem vísað er til sem ágreiningsmáls eru skráðir 131,75 tímar en um er að ræða ágreiningsmál sem rekið var fyrir héraðsdómi undir málsnúmerinu Q-xxxx/20xx. Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir nefndinni má m.a. sjá að flytja þurfti málið tvisvar, auk þess sem matsgerð var lögð fram í málinu. Þriðji og síðasti hluti málsins samkvæmt vinnuskýrslu kærðu vísar til kæru á niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. Q-xxxx/20x til Landsréttar en skráðir tímar vegna þessa þáttar voru 17 talsins.

 

 

 

II.

Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að skilja upphaflegan málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um umkrafið endurgjald kærðu eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 en hins vegar að broti á lögum eða siðareglum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærandi lýsir því að frá upphafi hagsmunagæslu kærðu, þ.e. frá 28. febrúar 2018 og til þess tíma að niðurstaða Landsréttar lá fyrir x. mars 20xx, hafi henni aðeins borist ein tímaskýrsla frá kæranda. Hafi sú skýrsla fylgt fyrsta reikningi kærðu sem dagsettur var 12. júní 2018 og hljóðaði upp á kr. 265.050.

 

Faðir kæranda hafi þrívegis greitt kr. 500.000 inn á verkið í samræmi við óskir kærðu og taldi kærandi að þær greiðslur hefðu að stærstum hluta átt að dekka heildarkostnað vegna málsins.

 

Kærandi hafi í mars 2021 óskað eftir kostnaðarstöðu frá kærðu og 23. þess mánaðar borist tölvubréf frá kærðu með umbeðnum upplýsingum ásamt tímaskýrslum. Kærandi lýsir því að í umræddu tölvubréfi kærðu hafi komið fram tilboð um lokagreiðslu að fjárhæð kr. 5.154.680 en að kærða hafi lýst sig reiðubúna til að veita afslátt og lokagreiðslan því staðið í kr. 4.400.000. Þar sem kæranda hafi þótt tölvubréfið illskiljanlegt hafi hún óskað eftir nánari sundurliðun á vinnunni, sem kærða hafi svarað með því að senda fleiri tímaskýrslur og var það í fyrsta skipti sem kæranda barst sundurliðun á vinnu við málið. Eftir yfirferð tímaskýrslnanna þótti kæranda ekki augljóst hver heildarkostnaður væri, heldur einungis hverjar eftirstöðvarnar væru. Samkvæmt útreikningi kæranda næmi heildarkostnaður vegna hagsmunagæslu kærðu kr. 7.298.835 með vsk., auk kr. 65.000 vegna útlagðs kostnaðar vegna kæru til Landsréttar, eða samanlagt kr. 7.363.835.

 

Kærandi vísar til þess í kæru sinni til nefndarinnar að hún telji heildarkostnað vegna vinnu við málið „út úr korti“. Í ljósi þess að engar vinnuskýrslur eða upplýsingar um heildarkostnað hafi borist kæranda frá upphafi málsins, 28. febrúar 2018 til x. mars 20xx, utan einnar tímaskýrslu sem fylgt hafi  fyrsta reikningi vegna vinnu kærðu frá 12. júní 2018, hafi heildarkostnaður málsins komið kæranda í opna skjöldu.

 

Hafi kærandi í framhaldinu óskað eftir fundi með kærðu, sem haldinn hafi verið á skrifstofu kærðu 23. apríl 2021. Á fundinum hafi kærandi greint kærðu frá því að hún hefði í hyggju að skipta um lögmann annars vegar vegna þess að hún teldi kærðu hafa komið sér að óvörum með gríðarlega háum kostnaði og hins vegar vegna þess að kærandi hafi talið að með jöfnum innágreiðslum inn á málið að ósk kærðu, hafi kærandi staðið í þeirri trú að búið væri að greiða meirihluta heildarkostnaðar. Eðlilegra hefði verið ef kærða hefði upplýst kæranda um áfallinn kostnað vegna málsins í hvert skipti sem óskað hafi verið eftir greiðslum inn á verkið. Ljóst sé að kærða hafi sinnt tímaskráningu í rauntíma og því hefði ekki þurft annað en að leggja  saman skráða tíma til þess að sjá kostnað hverju sinni. Á fundinum hafi kærandi lagt fram tilboð að fjárhæð kr. 3.459.988 til þess að ljúka málinu en kærða hafnað því. Hafi kærandi því fundið sig nauðbeygða til þess að skjóta málinu til úrskurðarnefndar lögmanna og framhaldinu tilkynnt kærðu um það.

 

Í framhaldi af fundi kæranda með kærðu 23. apríl 2021 hafi kæranda borist tölvubréf frá kærðu sem innihélt tímaskýrslur og útgefna reikninga. Í bréfi kærðu hafi komið fram að heildarkostnaður vegna málsins væri kr. 6.795.860 og að skuld kæranda stæði í kr. 4.625.822. Hafi heildarkostnaður málsins lækkað frá fyrra pósti kærðu frá 23. mars s.á., þar sem kærða hafði lækkað tímagjald sitt. Í bréfinu hafi kærða jafnframt upplýst að hún hefði fallið frá tilboði sínu um afslátt. Í framhaldinu hafi kærða sent kæranda reikning að upphæð kr. 4.625.822, sem væri í samræmi við leiðrétt tímagjald án afsláttar.

 

Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að kærða hafi aldrei á meðan á hagsmunagæslunni stóð upplýst kæranda um áfallinn kostnað vegna málsins eða hver hann gæti orðið. Staðhæfingar kærðu þess efnis að hún hafi gert kæranda grein fyrir verkkostnaði eftir föngum væri ósönn. Rétt sé að kærandi óskaði eftir því að fá að gera kostnaðinn upp við lok málsins en slíkt þýddi hins vegar ekki að málið mætti kosta hvað sem væri. Kærandi hafi óskað eftir framangreindu greiðslufyrirkomulagi vegna þess að tekjur hennar hafi verið mjög lágar á þessum tíma og hún hafi því ekki haft tök á að greiða lögfræðikostnað. Hafi kærandi í einfeldni sinni haldið að gengið yrði frá skilnaðarmálinu hið fyrsta og að hún gæti gert upp lögfræðikostnaðinn þegar hlutur hennar í fasteigninni E 14 yrði seldur.

 

Í kvörtun og viðbótarathugasemdum kæranda eru gerðar athugasemdir við hversu hár kostnaður sé af vinnu við málið í samanburði við þá hagsmuni sem voru undir. Bendir kærandi á að hlutdeild hennar í fasteign málsaðila hafi ekki legið fyrir vegna þess að deilumál varðandi eignina voru óútkljáð. Færi málið á besta veg yrði fasteignin seld og hún fengi greiddan út sinn hlut, kr. 34.000.000 – 35.000.000 m.v. áhvílandi lán að fjárhæð kr. 41.000.000. Í versta falli fengi kærandi hins vegar aðeins kr. 7.000.000. Varðandi félagið F ehf, þá eigi kærandi 33,3% hlut í því og C 66,7%. Nafnvirði eignarhluta kæranda samkvæmt ársreikningi 2019 hafi verið kr. 13.000.000, en C hafi boðist til þess að kaupa kæranda út með greiðslu að fjárhæð kr. 9.000.000. Því hafi legið fyrir að fasteignin E 14 hafi verið aðaleign kæranda og hæst á lista yfir fjárhagslega hagsmuni hennar.

 

Þá er í kvörtun og viðbótarathugasemdum kærðu vísað til þess að kærða hafi látið vinna matsgerð um verðmæti lífeyris C. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi aflað frá lögfróðum aðilum hafi sókn í séreignasjóð lífeyrisréttinda fyrrverandi eiginmanns hennar verið fyrirfram vonlaus og því skilji hún ekki hvers vegna kærða hafi ekki hvatt hana til þess að hverfa frá kröfu um hlutdeild í séreigninni. Með þessu hafi kærða ekki sinnt hagsmunagæslu kæranda sem skyldi og ekki haft hag hennar í fyrirrúmi. 

 

III.

Kærða krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og vísar til þess að hún hafi í hvívetna gætt hagsmuna kæranda í skilnaðarmáli hennar við eiginmann sinn en samkvæmt verksamningi hafi hagsmunagæslan falist í því að gæta allra hagsmuna kæranda. Verkefnið hafi m.a. snúið að fjárslitum þeirra hjóna, málefnum barna, kröfu um opinber skipti, ef til þess kæmi og að gæta hagsmuna kæranda í ágreiningsmálum eða dómsmálum ef þess þyrfti. Þóknun kærðu hafi miðast við tímagjald að fjárhæð kr. 22.500 auk virðisaukaskatts og sérstaklega tiltekið að lágmarks tímaeining fyrir einstök verk væri 15 mínútur. Einnig hafi kærandi verið upplýstur um að öll símtöl og tölvubréf teldust til vinnu af hálfu kærðu.  

 

Varðandi greiðslufyrirkomulag þá hafi kærandi sérstaklega óskað eftir því við kærðu á fundi, eftir útgáfu reiknings dags. 12. júní 2018 að þóknun yrði gerð upp við lok hagsmunagæslu. Hafi kærða fallist á það, vitandi að verkið gæti dregist á langinn en einnig fest tímagjaldið og hafi þannig verið tilbúin til að taka á sig allar verðlagshækkanir til þess að koma til móts við kæranda. Málsaðilar hafi ekki rætt um að kærða gæfi reglulega út reikninga vegna vinnu sinnar en kærða hafi upplýst að haldin yrði tímaskýrsla yfir öll verk sem unnin yrðu í þágu kæranda og að hún gæti hvenær sem er kallað eftir þeim.

 

Kærða lýsir því að hagsmunagæslan hafi verið umfangsmikil, fyrst hafi verið reynt að ná samningum um börnin, forsjá þeirra, lögheimili og meðlag og síðan um fjárskiptin. Fljótlega hafi þó komið í ljós að of mikið bar í milli aðila og því ekki annað fært í stöðunni en að óska eftir opinberum skiptum. Við skiptin hafi komið í ljós að ágreiningur var m.a. um fasteign aðila, áhvílandi lán, viðmiðunardag skipta, eignarhlut í F ehf., lífeyrisréttindi aðila og leigu vegna afnota C á eignarhlut kæranda í fasteign aðila. Í raun hafi verið ágreiningur um allt nema bifreiðar, bankareikninga og námslán málsaðila. Þá hafi C gert ágreining við hvert fótmál í fjárskiptunum og varðandi börnin. Framangreint hafi haft í för með sér að umfang málsins jókst til muna þar sem mikill tími hjá kærðu hafi farið að verjast kröfum C. Um þetta atriði vísar kærða til fylgigagna með kvörtun þar sem glögglega megi sjá magn tölvupósta og annarra samskipta í málinu. Margar sáttartilraunir hafi verið gerðar en þær reynst árangurslausar en kærða hafi fengið skýr skilaboð um það frá kæranda að gera ítrustu kröfur og gefa ekkert eftir. Kærða hafi einnig fengið skýr skilaboð um að láta reyna á ágreiningsmálin fyrir dómstólum og það sama hafi átt við um ágreining varðandi lífeyrisréttindi C, þrátt fyrir að kærða hafi upplýst að slíkt gæti reynst torsótt.

 

Kærða lýsir því að öll verk sem hún hafi sinnt fyrir hönd kæranda hafi verið unnin með hennar samþykki og að hún hafi borið allt undir kæranda, líkt og sjá megi af tölvupóstum, fundum og skilaboðum sem fylgdu andsvörum kærðu. Kærandi hafi verið upplýst um öll skref málsins og hafi haft allt um það að segja í hvaða farveg málið færi í samræmi við upplýsingar og ráðgjöf frá kærðu.

 

Varðandi tímafjöldann við vinnu við hagsmunagæsluna þá liggi fyrir tímaskýrslur í málinu og byggi útgefnir reikningar á þeim. Samkvæmt kærðu er hagsmunagæslunni skipt í þrjá hluta, þ.e. skilnaðarmálið, þar sem skráðir eru allir tímar sem ekki tengjast ágreiningsmálinu fyrir héraðsdómi eða kæru þess máls til Landsréttar, samtals 77,75 klst. og nemur þóknun vegna þess hluta kr. 2.169.225. Í öðru lagi rekstur ágreiningsmálsins, 130,75 klst. þar sem þóknunin hljóðar upp á kr. 3.683.265 og loks kæra vegna þess máls til Landsréttar, 17 klst. þar sem þóknunin er kr. 473.300. Heildarfjöldi tíma hafi þannig verið 225,5 klst. sem telja verði eðlilegan miðað við umfang málsins í heild. Í lýsingu kærðu á hverjum hluta fyrir sig kemur m.a. fram til samanburðar að í ágreiningsmálinu hafi þóknun lögmanns C numið kr. 3.035.520, en vinna kærðu hafi verið mun umfangsmeiri en vinna hans. Í ágreiningsmálinu hafi verið margar fyrirtökur, ítarlegri greinargerð skilað, matsbeiðni útbúin vegna lífeyrisréttinda og auk þess hafi þurfti að endurflytja málið að beiðni dómara. Hafi heildarþóknun kærðu numið kr. 6.326.790 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk kostnaðar við gerð matsgerðar kr. 469.070 eða samtals kr. 6.795.860. Innborgun G, föður kæranda hafi numið kr. 1.969.988, en inn í þeirri fjárhæð sé útlagður kostnaður vegna matsgerðarinnar og kærugjalds til Landsréttar. Innborgunin inn á verkið sjálft hafi því verið kr. 1.500.918, auk kr. 265.050 frá kæranda sjálfum. Eftirstöðvarnar hafi því numið kr. 4.625.822 og hafi útgefinn reikningur vegna þeirra verið greiddur.  

 

Kærða lýsir því að kærandi og faðir hennar hafi í kjölfar þess að kærða sendi þeim upplýsingar um tímafjölda og eftirstöðvar kostnaðar, óskað eftir fundi með kærðu. Hafi kærða staðið í þeirri trú að kærandi og faðir hennar hygðust ræða við hana um skiptingu greiðslna og greiðslufresti en kærðu að óvörum hafi þau viljað ljúka málum með greiðslu til kærðu á kr. 3.459.988 í þóknun fyrir hagsmunagæsluna og kostnaði vegna matsgerðarinnar. Hafi rök kæranda verið þau að hún hefði tapað svo miklum fjármunum vegna skilnaðarmálsins og vegna ófullnægjandi hagsmunagæslu af hálfu kærðu. Hafi kærða hafnað þessu boði og í kjölfarið hafi kærandi tilkynnt að hún hygðist láta reyna á málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá kemur fram í greinargerð kærðu að hún líti svo að með tilboði kæranda um greiðslu á kr. 3.459.988 hafi kærandi hafnað tilboði hennar um afslátt og kærða sé því óbundin af því tilboði.

 

Í greinargerð sinni vísar kærða til þess að lækkunarkrafa kæranda byggi aðallega á því að henni þyki kostnaðurinn vera of hár miðað við umfang málsins og hagsmuni, ásamt því að kærða hafi ekki sent tímaskýrslur reglulega. Hvað varðar hagsmuni kæranda, þá nemi þeir tugum milljónum króna í fjárskiptunum sjálfum ásamt hagsmunum hennar vegna forsjár barna, lögheimilis þeirra, meðlagsgreiðslna og framfærslulífeyris. Ekki sé rétt að horfa einungis á heildarfjárhæð þóknunar sem hlutfall af eignarhlut kæranda í fasteign aðila. Þá hafi umfang málsins verið jafn mikið og raun bar vitni vegna þess ágreinings sem C gerði um nánast alla þætti málsins.

 

Kærða upplýsir að hún hafi farið sérstaklega yfir kröfuna um hlutdeild í lífeyrisréttindum C á fundi með kæranda, m.a. út frá fyrirliggjandi  dómafordæmum í slíkum málum og hafi kærða skýrt tekið fram að kröfur um hlutdeild í lífeyrisréttindum maka væru sjaldan teknar til greina fyrir dómstólum. Hún hafi þó bent á svokallaða flugstjóradóma þar sem fallist hafi verið á slíkar kröfur. Hafi kærandi sjálf tekið ákvörðun um að hafa kröfu um lífeyrisréttindin inn í ágreiningsmálinu og hún hafi verið upplýst um að dómkveðja þyrfti matsmann til þess að reikna út lífeyrisréttindin og að slík matsgerð kostaði töluverða fjármuni.

 

Á grundvelli framangreinds hafni kærða því að hún hafi ekki gætt hagsmuna kæranda á fullnægjandi hátt og að hún hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Kærða hafi lagt sig alla fram til þess að gæta hagsmuna kæranda og takmarkað alla þóknun vegna verksins. Verkið sjálft hafi hins vegar verið mjög umfangsmikið og hagsmunagæslan náð yfir rúm 3 ár. Því hafi verið erfitt að áætla verkkostnað. Þá kveðst kærða ekki hafa rukkað alla unna tíma við hagsmunagæsluna og njóti kærandi góðs af því.

 

Niðurstaða

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa kærðu og hins vegar um það hvort kærða hafi gert á hlut kærenda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að tilefni sé til að beita agaviðurlögum.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum og vekja athygli hans á því ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

 

Í fyrri úrskurðum nefndarinnar hefur verið lagt til grundvallar að skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. framangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna, sé virk á meðan verkinu vindur fram. Samskipti málsaðila á verktíma, sem liggja fyrir nefndinni, bera með sér að kærða hafi frá upphafi hagsmunagæslunnar, þ.e. frá 28. febrúar 2018 til loka málsins fyrir Landsrétti x. mars 20xx, aðeins sent eina tímaskýrslu til kæranda, sem gert hafi verið með útsendingu reiknings 12. júní 2018. Virðist kærandi þannig ekki hafa verið upplýst um áfallnar vinnustundir eða stöðu málsins fyrr en kærandi kallaði sérstaklega eftir upplýsingum þess efnis í tölvubréfi 23. mars 2021.  

 

Með hliðsjón af fjölda skráðra vinnustunda kærðu á tímabilinu, tímalengd hagsmunagæslunnar og fjárhæð áskilins endurgjalds úr hendi kæranda, verður að mati nefndarinnar ótvírætt að telja að kærða hafi á grundvelli 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna borið að gera kæranda með reglubundnum hætti grein fyrir þeim verkkostnaði sem stofnað var til vegna starfa hennar á verktímanum. Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að misbrestur hafi orðið á því af hálfu kærðu.

 

Að mati nefndarinnar er eðlilegt þegar sanngjörn þóknun er metin, að tekið sé tillit til þess sem áður greinir um að ekkert liggi fyrir um að kærða hafi gert kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf starfans eða áföllnu endurgjaldi á verktíma.

 

III.

Að mati nefndarinnar var það tímagjald sem kærða áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda, að fjárhæð kr. 22.500  auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi.

 

Í málavaxtalýsingu greinir hvernig vinnu kærða í þágu kæranda má gróflega skipta í þrjú stig; í fyrsta lagi vinnu við rekstur skilnaðarmáls við opinber skipti á vegum skiptastjóra, í öðru lagi rekstur ágreiningsmáls fyrir héraðsdómi og í þriðja lagi rekstur kærumáls fyrir Landsrétti. Kærða hefur samtals gert kæranda reikninga vegna 225,5 vinnustunda. Vegna reksturs skilnaðarmálsins  77,75 vinnustundir,  vegna reksturs ágreiningsmálsins 130,75 vinnustundir og  vegna reksturs kærumálsins 17 vinnustundir. Með hliðsjón af umfangi málsins sem kærða sinnti sannanlega í þágu kæranda, málsgögnum og atvikum öllum að öðru leyti, er það mat nefndarinnar að fjöldi vinnustunda kærðu við hið svokallaða skilnaðarmál, 77,75 klst. og við kæruna til Landsréttar, 17 klst., teljist hæfilegar.

 

Varðandi vinnu kærðu við rekstur ágreiningsmálsins, nánar tiltekið mál héraðsdóms nr. Q-xxx/20xx, þá hefur kærða gert kæranda eins og áður segir reikning vegna 130,75 vinnustunda vegna þess. Við mat á hæfilegu endurgjaldi vegna vinnu lögmanna þarf fyrst og fremst að taka mið af umfangi starfa lögmannsins í viðkomandi máli sem og þeim hagsmunum sem málareksturinn lýtur að. Eins og nánar greinir í lýsingu málavaxta snerist umrætt ágreiningsmál annars vegar um uppgjör og skiptingu eignarhluta í fasteign kæranda og fyrrum eiginmanns hennar og hins vegar um hvort lífeyrisréttindi fyrrum eiginmanns kæranda kæmu til skipta. Að mati nefndarinnar er umræddur ágreiningur hefðbundinn á því réttarsviði sem um ræðir og þeir hagsmunir sem voru til umfjöllunar í málinu að sama skapi innan þeirra marka sem almennt má gera ráð fyrir við hagsmunagæslu lögmanna í málum sem lúta að skiptingu eigna við slit á hjúskap. Telur nefndin því að umfang málsins, sakarefni eða hagsmunir gefi ekki tilefni til aukinnar tímaskráningar umfram það sem almennt má búast við í sambærilegum málum.

 

Eins og rakið er að framan hafði kærða, áður en kom að rekstri ágreiningsmálsins, rekið skilnaðarmál kæranda við opinber fjárskipti á milli kæranda og eiginmanns hennar. Gerði kærða reikning vegna þeirrar vinnu sem nemur 77,75 klst. Við þá vinnu kom m.a. til umfjöllunar og greiningar sá ágreiningur sem síðar var borinn undir héraðsdóm. Verður að mati nefndarinnar að líta til þess að óhjákvæmilega varð einhver skörun á þeim verkefnum sem kærða sinnti í þágu kæranda annars vegar við rekstur skilnaðarmálsins og ágreiningsmálsins hins vegar. Telur nefndin að sú vinna sem kærða hafði áður innt af hendi við skilnaðarmálið hefði átt að gagnast henni að einhverju leyti við rekstur ágreiningsmálsins.

 

Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að skort hafi á upplýsingagjöf kærðu gagnvart kæranda varðandi áfallnar vinnustundir og þar með umfangi starfans. Telur nefndin óhjákvæmilegt að líta einnig til þess við ákvörðun á hæfilegum verklaunum.

 

Með hliðsjón af öllu framansögðu telur nefndin að þær vinnustundir sem kærða gerði kæranda reikning fyrir vegna reksturs ágreiningsmálsins sé nokkuð umfram það sem kærandi mátti búast við og hæfilegt getur talist. Nefndin telur því að rétt að leggja til grundvallar að hæfilegur fjöldi vinnustunda kærðu í þágu kæranda við ágreiningsmálið sé 90 talsins en ekki 130,75 og heildarfjöldi tíma sem reikningsfærðir verðir vegna vinnu kærða í þágu kæranda því hæfilega ákveðnir 184,75. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir störf kærðu í þágu kæranda, í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998, hafi verið kr. 4.156.875, auk virðisaukaskatts, eða samtals kr. 5.154.525.

 

Kærandi hefur nú þegar greitt 6.326.790 með virðisaukaskatti ásamt kostnaði við gerð matsgerðar kr. 469.070 eða samtals kr. 6.795.860. Fyrrgreind niðurstaða nefndarinnar um mat á hæfilegu endurgjaldi felur í sér að áskilið endurgjald kærðu sætir lækkun um kr. 1.172.265.

 

IV.

Málatilbúnaður kæranda er einnig reistur á því að hagsmunagæsla kærðu í hennar þágu hafi verið ófullnægjandi og að háttsemi hennar hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna.

Að mati nefndarinnar verður á engan hátt ráðið af málsgögnum að einhverju hafi verið áfátt í hagsmunagæslu kærðu í þágu kæranda. Varðandi ágreining aðila um hvort lífeyrisréttindi fyrrum eiginmanns kæranda kæmu til skipta verður eins og áður segir að telja hann eðlilegan á því réttarsviði sem um ræðir og þeir hagsmunir innan þeirra marka sem almennt má gera ráð fyrir við hagsmunagæslu lögmanna í málum sem lúta að skiptingu eigna við slit á hjúskap.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærða hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af málsgögnum að mati nefndarinnar en að kærða hafi rækt þau störf sem henni var trúað fyrir af alúð og að hún hafi neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna kæranda, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald kærðu, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu kæranda, A sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera kr. 5.154.525  með virðisaukaskatti.

 

Kærða, B lögmaður hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

 

 

Grímur Sigurðsson, formaður

Helgi Birgisson

Dagmar Arnardóttir

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Grímur Sigurðsson